Quantcast
Channel: Svava – Ljúfmeti og lekkerheit
Viewing all 545 articles
Browse latest View live

Hindberjatrufflur

$
0
0

Á laugardagskvöldinu buðum við foreldrum sem við höfum kynnst í gegnum fótboltann hjá Gunnari hingað heim. Við höfum staðið saman á hliðarlínunni á nánast öllum leikjum liðsins í sumar og áttum svo sannarlega skilið smá uppskeruhátið. Þetta er frábær hópur sem gerir fótboltalífið enn skemmtilegra og var æðislega gaman að hitta loksins utan vallarins.

Í fordrykk buðum við upp á kampavín, jarðaber og franskar makkarónur.

Síðan vorum við með ostabakka og plokk, en ég held að minn helsti veikleiki matarlega séð séu ostar. Ég fæ ekki nóg af þeim. Ég hef lengi verið á höttunum eftir stóru bretti fyrir osta og plokkmat og datt svo niður á þetta í Ikea á 2.500 krónur. Það rúmar mikið án þess að vera of breytt á borðið. Fullkomin stærð!

Ég gleymdi að mynda borðið þegar allt var komið á það en fyrir utan ostana vorum við með pekanhjúpuðu ostakúluna, tómatcrostini með þeyttum fetaosti, fræhrökkbrauð, beikonvafðar döðlur og tortillavefjur. Síðan prófaði ég að gera truffluhindber sem ég sá á sænsku bloggi en koma upphaflega frá Allt om mat.

Hindberjatrufflur (uppskrift frá Allt om Mat)

  • 250 g fersk hindber
  • 1 msk sykur
  • 100 g dökkt súkkulaði (ég var með 56% súkkulaðið frá Nóa Siríus)
  • 1/2 dl rjómi
  • 1/2 msk smjör

Blandið um 1/2 dl af hindberjum með sykri og hrærið þar til sykurinn er uppleystur. Látið blönduna renna í gegnum sigti og hendið kjörnunum sem verða eftir í sigtinu.

Hakkið súkkulaðið. Hitið rjómann að suðu og takið pottinn af hitanum. Hrærið súkkulaði, smjöri og kjarnalausu hindberja/sykurblöndunni í rjómann þar til blandan er orðin slétt. Látið blönduna aðeins kólna í ísskáp. Sprautið trufflunni í hindberin og látið standa í ísskáp þar til þau eru borin fram (ekki geyma þau of lengi þar sem þau geta þá orðið aðeins blaut).

 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave



Stökkar fajita kjúklingavefjur

$
0
0

Fyrir viku síðan fór ég niður í Þríhnjúkagjúg en það hafði mig lengi langað til að gera. Það var ótrúleg upplifun að fara þangað niður og ef þið hafið tækifæri til þess, skuluð þið ekki láta það úr hendi sleppa. Ég veit að það hafa stundum verið tveir fyrir einn tilboð undir lok tímabilsins (síðustu ferðirnar niður eru um miðjan október) sem gæti verið snjallt að nýta sér.

Lyftuferðin niður er mögnuð! 

Það er róleg helgi framundan hjá mér og ég er búin að lofa krökkunum heimagerðum pizzum annað kvöld. Síðasta föstudagskvöld gerði ég hins vegar steiktar kjúklingavefjur sem okkur þótti frábær föstudagsmatur. Ég gerði mér einfalt fyrir og keypti tilbúinn grillaðan kjúkling og tilbúið guacamole (fæst ferskt í Hagkaup) og þá tók enga stund að koma matnum á borðið. Æðislega gott!

Steiktar fajita kjúklingavefjur

  • 1 kjúklingur (ég keypti tilbúinn grillaðan kjúkling)
  • 1 poki fajitas krydd
  • rauð paprika
  • græn paprika
  • laukur
  • kóriander (má sleppa)
  • sýrður rjómi eða ostasósa
  • ostur

Rífið kjúklinginn niður og skerið paprikunar og laukinn í strimla. Steikið allt saman á pönnu og kryddið með fajitas kryddi (notið allan pokann).

Smyrjið tortillaköku með um 3 msk af sýrðum rjóma eða ostasósu, setjið um 1 dl af kjúklingablöndunni yfir (setjið hana í miðjuna á tortillakökunni) og stráið kóriander og rifnum osti yfir. Brjótið tortillukökuna saman þannig að lokist fyrir allar hliðar. Hitið olíu á pönnu og steikið vefjurnar á báðum hliðum þar til þær eru orðnar stökkar. Berið fram með meðlæti eins og t.d. nachos, salsa, salati, sýrðum rjóma, guacamole og/eða ostasósu.

 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave


Nutellabananakaka

$
0
0
 
Ég sit hér yfir morgunmatnum mínum (ristað súrdeigsbrauð með stöppuðu avokadó, sítrónusafa, chilli explotion og góðu salti – svo gott!!) og er að gera innkaupalista fyrir matvörubúðina á sama tíma og ég skrifa þessa bloggfærslu. Mig langar að baka köku til að eiga með kaffinu og datt í hug að endurtaka helgarbaksturinn frá síðustu helgi. Þessi kaka vakti sérlega mikla lukku hjá krökkunum og ég veit að þau verða glöð að sjá hana aftur á borðinu. Ef fleiri eru í baksturshugleiðingum þá mælum við með þessari!
Nutellabananakaka
  • 2 bollar hveiti
  • ¾ tsk matarsódi
  • ½ tsk salt
  • ¼ bolli mjúkt smjör
  • 1 bolli sykur
  • 2 stór egg
  • 1¼ bolli stappaður þroskaður banani
  • 1 tsk vanilludropar
  • ⅓ bolli mjólk
  • ¾ bolli Nutella
Hitið ofninn í 175° og smyrjið formkökuform.
Hrærið saman sykur og smjör. Bætið eggjum, einu í einu, saman við og hrærið vel á milli. Bætið stöppuðum bönunum, mjólk og vanilludropum saman við og hrærið þar til hefur blandast vel. Setjið hveiti, matarsóda og salt út í og vinnið saman í slétt deig (passið að ofhræra ekki deigið).
Setjið Nutella í skál og hitið í 15 sek í örbylgjuofni. Hrærið aðeins í skálinni til að jafna hitann og bætið síðan 1 bolla af deiginu saman við. Hærrið þar til hefur blandast vel.
Setjið helming af ljósa deiginu í botninn á formkökufominu, setjið síðan brúna deigið yfir og endið á seinni helmingnum af ljósa deiginu. Stingið hnífi í deigið og snúið honum aðeins um formið til að snúa ljósa og brúna deiginu aðeins saman. Setjið formið í ofninn og bakið í 50-60 mínútur, eða þar til prjóni sem hefur verið stungið í kökuna kemur hreinn upp. Látið kökuna standa í forminu í amk 15 mínútur áður en hún er tekin úr því.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave


Vikumatseðill

$
0
0

Það er skemmtileg vika að baki með veisluhöldum kvöld eftir kvöld. Þetta er búið að vera fjör! Myndirnar eru frá fimmtudagskvöldinu en þá vorum við með það allra nánasta hér í kvöldkaffi þar sem boðið var upp á Oreo-ostaköku og Rice krispiesköku með bananarjóma og karamellu. Síðan keypti ég uppáhalds nammið hennar Malínar og setti í skálar. Einfalt og gott.

Í kvöld hlakka ég til að leggjast fyrir framan sjónvarpið og horfa á lokaþáttinn af Allir geta dansað. Það sem mér hefur þótt gaman að fylgjast með þessum þáttum og hvað ég dáist að dugnaðinum í dönsurunum! Planið var að grilla eitthvað gott í kvöldmat en það er nú ekki beint grillveður þessa dagana. Eftir veisluhöld síðustu daga langar mig mest til að sækja take-away og gera sem minnst í kvöld. Í næstu viku bíða tveir vinnudagar og svo smá frí. Ég hlakka til!

Vikumatseðill

Mánudagur: Ítalskur lax með fetaostasósu

Þriðjudagur: Hakkabuff með karamelluseruðum lauki og rjómasósu

Miðvikudagur: Puy linsurósmarín og hvítlaukssúpa

Fimmtudagur: Mozzarellapizza

Föstudagur: Kjúklingasalat með BBQ-dressingu

Með helgarkaffinu: Torta di Pernilla

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Ostar og annað gott

$
0
0

Á morgun förum við Hannes með vinum okkar til New York en ferðina keypti hópurinn eftir að hafa tekið skyndiákvörðun rétt fyrir miðnætti á þorláksmessukvöldi. Síðan þá höfum við haldið undirbúningsfundi sem hafa ekki skilað neinu öðru en tómum diskum, tómum vínflöskum og rækilegri inneign í gleðibankann. En nú er að koma að þessu og við stelpurnar ákváðum að hittast hér heima á föstudagskvöldinu og græja okkur fyrir ferðina. Við lituðum augnhár og augabrúnir, settum á okkur maska, lökkuðum fingur og tær og enduðum kvöldið á að bóka okkur tíma í hárdekur í New York. Það sem ég hlakka til!

Ég bauð upp á osta og plokk (það besta sem ég veit! … og einfaldasti maturinn til að bjóða upp á) og má bara til með að mæla með sælkeraborðinu í Hagkaup í Kringlunni (hafið þið farið í búðina eftir breytingarnar? Hún er svo flott!). Þar er frábært úrval af ostum og þjónustan engu lík. Ég talaði við mömmu þegar ég kom heim og sagði henni frá því hvað ég hefði fengið frábæra þjónustu í sælkeraborðinu og þá hafði hún sömu sögu að segja. Sá sem afgreiddi mig var svo áhugasamur um ostana, leyfði mér að smakka þá og bera þá saman, og var klár í að ráðleggja mér um hvaða ostar færu saman á ostabakkanum. Síðan benti hann mér á að kaupa ost úr kælinum hjá þeim til að bæta við þá sem ég var búin að velja úr borðinu hjá honum. Í sælkeraborðinu fæst líka besti ostur í heimi, svartur Primadonna. Ef þið hafið ekki smakkað hann þá skulið þið gera það prontó! Ég fæ ekki nóg af honum.

Ég er vön að bera osta fram með nýbökuðu snittubrauði (kaupi þau frosin og hita upp heima) en nýjasta æðið eru þó tengdamömmutungurnar. Ég smakkaði þær í fyrsta skipti í einum af undirbúningsfundunum og það var ekki aftur snúið. Mér þykja þær passa fullkomlega með ostum.

Og fyrst ég er komin í gír þá er eins gott að halda áfram að telja upp nýjustu æðin hér heima, en þessi snakkpoki frá Lay´s með þroskuðum cheddar lendir orðið ansi oft í innkaupakerrunni hjá okkur. Svo góður með köldu freyðivíns- eða hvítvínsglasi. Tips fyrir heitu sumarkvöldin sem bíða okkar (maður má alltaf vona!).

Að lokum vil ég gjarnan hafa smá súkkulaði með ostabakkanum, sérstaklega ef ég er ekki með eftirrétt. Hér leyndist dökkt súkkulaði með karamellu og sjávarsalti, lakkrís karameluperlur og Nóa piparkropp. Gott!

Vikumatseðill

$
0
0

Ég hef barist við þreytu alla vikuna eftir hreint út sagt frábæra New York ferð í síðustu viku. Það sem við skemmtum okkur vel!! Ég kom við í Hagkaup áður en ég fór út (krakkarnir voru heima á meðan og ég vildi skilja við fullan ísskáp) og á kassanum kippti ég með mér bók sem var nýkomin út, Tvö hundruð sextíu og einn dagur. Hún beið mín þegar ég kom heim og ég eyddi síðustu helgi í sófanum með bókina og fríhafnarnammið. Ég gat ekki hætt, hvorki með nammið (tveir stórir M&M pokar (sem stóð á sharing size… hvaða stælar eru það! Eins og maður ráði því ekki sjálfur…) og hlauppoki sem ég keypti fyrir krakkana en endaði á að borða svo frá þeim) né bókina. Kristborg Bóel skrifar svo vel og skemmtilega. Ég las bókina á tveim dögum og langaði mest til að hafa samband við hana og spyrja hvort það kæmi ekki örugglega framhald og það helst á morgun. Ég byrjaði svo á nýrri bók í vikunni, sem ég keypti mér á flugvellinum í New York, The light we lost. Hún fer líka mjög vel af stað og ég hlakka til að skríða upp í rúm á kvöldin og halda áfram. Í fyrra hlustaði ég mikið á hljóðbækur en í ár hef ég ekki hlustað á eina einustu heldur hlusta frekar á podcasta (ef þið hafið ekki hlustað á Í ljósi sögunnar þá mæli ég með þeim) og les bækurnar. Það er gaman að breyta til.

Ég ætla að taka saman smá færslu um ferðina við tækifæri en held þó í sunnudagshefðina og tek saman vikumatseðil í dag.

Vikumatseðill

Mánudagur: Grilluð tandoori lambalund með salati

Þriðjudagur: Fiskbakan frábæra

Miðvikudagur: Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan

Fimmtudagur: Blómkálssúpa með sveppaosti og sweet chili

Föstudagur: Tacopizzubaka

Með helgarkaffinu: Banana- og súkkulaðibaka

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Stökkt grænkálssnakk

$
0
0

Einn af saumaklúbbunum sem ég er í fagnar 20 ára afmæli í ár. 20 ár!! Við byrjuðum að hittast þegar við vorum flestar nýbakaðar mæður og í ár, sem er nánast eins og korteri síðar, eru ungviðin að útskrifast sem stúdentar. Lífið þýtur hjá!

Við hittumst um daginn hjá Sigrúnu vinkonu minni og eins og henni er von og vísa þá svignaði borðið undan kræsingum. Í forsnakk (… þegar ég skrifa þetta læðist að mér smá efi um að það hafi kannski ekki átt að vera for-neitt, heldur bara verið sett fyrst á borðið fyrir tilviljun og ég hafi verið dóni sem gúffaði því í mig áður en sagt var gjörið svo vel) bauð hún upp á grænkálssnakk sem var alveg brjálæðislega gott. Ég sendi henni auðvitað skilaboð daginn eftir til að fá uppskriftina. Uss ja….það er nú ekki flókið, geri þetta daglega orðið, var svarið. Og það er rétt hjá henni, þetta er ekki flókið. Tekur svipaðan tíma og að rista brauð!

Grænkálssnakk

Blöðin eru rifin af grænkáli, sett í skál eða poka og velt upp úr dassi af ólífuolíu. Því næst er dreift jafnt úr þeim yfir ofnplötu (setjið bökunarpappír undir). Kryddið með sjávarsalti og chili explosion og bakið við háan blásturshita (225°) í nokkrar mínútur. Það þarf að vakta ofninn á meðan grænkálið er í honum og jafnvel snúa kálinu. Opnið ofninn annað slagið og tínið út það sem er orðið stökkt.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

 

New York!

$
0
0

Ég var búin að lofa færslu um New York ferðina okkar og ætla að standa við það. Mér þykir sjálfri svo skemmtilegt að eiga smá dagbók hér á blogginu yfir ferðalögin okkar og vil því gjarnan skrifa smá færslur um þau. New York heillaði mig upp úr skónum! Það sem við höfðum það gaman!! Veðrið lék við okkur og borgin sýndi sínar bestu hliðar. Mig langaði mest til að framlengja…

SSSskutlurnar! Ég kynntist þessum tveim í gegnum fótboltann hjá Gunnari síðasta sumar, en synir okkar æfa allir með 3. flokki hjá Breiðablik. Við skemmtum okkur svo vel á leikjunum hjá strákunum að við ákváðum að halda smá uppskeruhátíð eftir sumarið. Síðan þá höfum við verið óaðskiljanlegar! Heitum Svava, Sunna og Sigrún og skiptumst á að skutla strákunum á æfingar (búum allar í göngufæri)… aka SSSskutlurnar! Skemmtilegustu skutlur í heimi!!

Í New York kynntumst við síðan megaskutlu, Julie Bowen sem leikur Claire Dunphy í Modern Family.

 

Eftir að hafa rölt um Central Park og legið í sólinni fórum við á The Met. Við skoðuðum þó nánast ekkert af safninu heldur borguðum okkur inn til að taka lyftuna rakleiðis upp á rooftop barinn, þar sem við fengum okkur drykki í sólinni og nutum útsýnisins yfir garðinn. Síðan tókum við eina klósett-selfie á safninu á leiðinni út…

Við byrjuðum einn daginn á Drybar í hárdekri á meðan mennirnir sváfu út. Meganæs!

Við vorum búin að bóka veitingastaði bæði fyrir hádegin og kvöldin. Ég hef þó aldrei verið jafn ódugleg að mynda eins og í þessari ferð. Hér erum við á Balthazar

Hádegisverður á The Wayfarer. Góður matur og frábær félagsskapur… líka á borðunum í kringum okkur en á einu þeirra sat Whoopi Goldberg!

Við borðuðum á Keens Steakhouse fyrsta kvöldið. Þar fengum við æðislegan mat en einhverja hluta vegna voru pípurnar í loftinu það eina sem festist á mynd það kvöldið.

Zuma var matarupplifun sem við munum seint gleyma. Við pöntuðum óvissuferð sem við héldum á tímabili að myndi engan enda taka. Við töldum 15 rétti (og vorum örugglega að gleyma einhverjum) og bróðurparturinn af þeim samanstóð af hráum fiskum. Eftir það fengum við 7 eftirrétti, en þá voru allir fyrir lifandis löngu búnir að fá nóg…

Við duttum fyrir tilviljun inn á Eataly eftir að hafa skoðað Ground Zero og vorum svo heppin að fá hornborðið með útsýni, sem strákarnir fengu að njóta (þó að við skutlurnar skyggðum kannski örlítið á það). Við nutum þess bara að horfa á þá, ekki slæmt útsýni það heldur!

Sézane er dásamlega falleg búð, bæði að utan og innan. Ég stillti mér auðvitað upp og lét Hannes taka mynd.

Hæ sjálfur!

Ground Zero. Mychal F. Judge var prestur hjá slökkviliðinu í New York og sá fyrsti sem lést í árásinni. Við vorum þarna á afmælisdeginum hans og því rós við nafnið.

Trump Tower í baksýn. Fólk gekk framhjá með fokkmerki…

Flatiron building í öllu sínu veldi. Svo mögnuð!

The High Line í sól og blíðu.




Hótelið okkar var með æðislegum rooftop sem við fórum fyrst á síðasta kvöldið. Takið eftir sjónvarpsstofunni á þakinu á húsinu á móti.

Glaðar vinkonur í langþráðu og kærkomnu fríi frá skutli og öðru hversdagsamstri. Þetta verður sko endurtekið!


Bananarúlluterta

$
0
0

Ég ætlaði að setja vikumatseðil inn um helgina en komst aldrei í það þar sem helgin var gjörsamlega á yfirsnúningi. Þrjár stúdentsveislur, kosningar (með tilheyrandi kosningavöku fram eftir nóttu), saumaklúbbur, skutl á fótboltaæfingu og annað hversdagsamstur gerði það að verkum að ég náði aldrei að setjast almennilega niður við tölvuna. Ég er þó síður en svo að kvarta enda alveg frábær helgi að baki.

Ég bakaði um daginn bananarúllurtertu eftir uppskrift sem ég sá hjá Salt eldhúsi. Ég furða mig á því hvað ég baka sjaldan rúllutertur því þær eru svo fljótgerðar og krökkunum mínum þykja þær svo góðar. Þessi er sérlega góð, enda bæði með súkkulaði og banana, sem er skotheld blanda. Ég mæli með að prófa!

Bananarúlluterta – uppskrift fyrir 8

4 egg
160 g sykur
65 g kartöflumjöl
2 tsk. lyftiduft
3 msk. kakó

4 bananar
4 dl rjómi

20 g súkkulaði, saxað eða rifið gróft

sítrónusafi til að kreista yfir bananana
Hitið ofninn í 250°C, 220 á blástur. Þeytið egg og sykur mjög vel saman eða þar til það er létt og loftmikið. Blandið kartöflumjöli, lyftidufti og kakó saman og sigtið út í eggjamassann, blandið varlega saman með sleikju. Setjið bökunarpappír í ofnskúffu, smyrjið pappírinn með matarolíu. Hellið deiginu í formið og bakið kökuna í miðjum ofni í 4 -5 mín. Setjið örk af bökunarpappír á borðið, stráið svolitlum sykri á hann. Hvolfið kökunni á pappírinn, látið kólna smástund og flettið pappírnum síðan varlega af. Ef það reynist erfitt að ná pappírnum af er ráð að setja rakt viskustykki ofan á smástund og fletta kökkunni af pappírnum með hníf. Látið kökuna kólna.
Þeytið rjómann, takið smávegis frá til að skreyta með. Stappið 3 banana og blandið saman við rjómann sem fer í fyllinguna. Smyrjið bananarjómanum á kökuna og rúllið henni upp. Sprautið eða setjið rjóma ofan á rúlluna með skeið og skreytið með banananasneiðum. Kreistið sítrónusafa yfir bananana svo þeir verði ekki brúnir. Stráið súkkulaði ofan á.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Súkkulaðikaka í steypujárnspönnu

$
0
0

Mér þykir gaman að setja inn uppskriftir fyrir helgar sem gætu hentað sem helgarmatur. Nú er hins vegar ekki um auðugan garð að gresja í uppskriftabankanum hjá mér þar sem ég hef satt að segja ekki staðið mig neitt sérlega vel í eldhúsinu upp á síðkastið. Eftir að við komum frá New York hefur verið stöðugt útstáelsi á mér og eini maturinn sem ég hef reitt fram eru hversdagsréttir á borð við steiktan fisk, pulsupasta og hakk og spaghetti.

Ég ætla því að gefa uppskrift af köku núna og það ætti enginn að verða svikinn af henni. Kakan er algjör súkkulaðidraumur! Ef þið eigið ekki steypujárnspönnu þá er hægt að nota eldfast mót eða venjulegt kökuform. Ég notaði pönnuna af því að ég hafði fyrir því að drösla henni heim frá Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum og hef lítið sem ekkert notað hana síðan þá (ég furða mig á útlitinu á henni því hún er svo lítið notuð). Það var því kominn tími til að draga hana fram. Berið kökuna fram heita með ís og jafnvel auka súkkulaðisósu. Súpergott!!

Súkkulaðikaka í steypujárnspönnu

  • 100 g smjör
  • 1 dl hveiti
  • 3 dl sykur
  • 3 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/2 tsk salt
  • 3 egg

Bræðið smjörið. Blandið þurrefnunum saman og hrærið þeim út í smjörið. Hrærið eggjunum saman við og hellið deiginu í steypijárnspönnu. Bakið við 175° í um 15 mínútur. Gerið súkkulaðikremið á meðan.

Súkkulaðikrem

  • 200 g mjólkur- eða rjómasúkkulaði, gjarnan með hnetum í (ég var með mjólkursúkkulaði með salthnetum í)
  • 1 dl rjómi

Bræðið súkkulaði og rjómi saman í potti. Hellið blöndunni yfir kökuna þegar hún kemur úr ofninum. Látið standa í smá stund (þannig að mesti hitinn rjúki úr henni) en berið kökuna fram meðan hún er ennþá heit/volg.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Vikumatseðill

$
0
0

Það er nú ekki hægt að kvarta undan veðrinu þessa helgina. Við náðum bæði að bera á pallinn og slá grasið svo nú má sumarið koma. Í dag hef ég ekki gert neitt af viti og aldrei almennilega farið á fætur. Stundum er það bara svo ljúft! Ég gerði bara lítil vikuinnkaup í gær því ég ætla að elda úr því sem er til í ísskápnum og frystinum þessa vikuna. Hér kemur þó tillaga að vikumatseðli og ég má til með að mæla sérstaklega með kjúklingnum í ostrusósunni. Hann er betri en á veitingahúsum, ég lofa!

Mánudagur: Fiskur í ljúffengri sósu

Þriðjudagur: Brokkólí- og sveppabaka

Miðvikudagur: Nautahakks- og makkarónupanna

Fimmtudagur: Kjúklingur í ostrusósu

Föstudagur: Eðlupizza

Með helgarkaffinu: Sænskir vanillusnúðar

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Kjúklingur og grænmeti

$
0
0

Á meðan veðrið helst gott reyni ég að forðast að eyða miklum tíma í eldhúsinu. Mitt besta ráð á slíkum dögum er að steikja grænmeti og kjúkling saman á pönnu og bera fram með tzatziki (hægt að kaupa tilbúið í flestum verslunum). Tekur enga stund og er bæði létt og gott í maga.

Það getur verið gott að hafa brauð með (t.d. pítubrauð) en sjálfri þykir mér kjúklingurinn og grænmetið duga. Ég nota sous vide elduðu kjúklingabringurnar sem fást orðið í verslunum (eða hafa þær kannski fengist lengi? Ég uppgötvaði þær bara nýlega) og hendi þeim á pönnuna undir lokin þannig að þær hitni aðeins. Annars er frábært að eiga þær í ísskápnum til að setja í pastarétti eða á pizzur. Geymast lengi og gott að geta gripið í þær.

Það sem ég setti á pönnuna í þetta skiptið var:

  • sæt kartafla
  • sellerírót
  • brokkólí
  • rauðlaukur
  • papikur, rauð og græn
  • 4 kjúklingabringur

Ég byrjaði á að skera sætu kartöfluna og sellerírótina í bita á meðan pannan var að hitna. Það fór svo á pönnuna ásamt smá ólífuolíu og á meðan skar ég það sem eftir var af grænmetinu niður. Þegar kartöflurnar voru farnar að mýkjast bætti ég grænmetinu á pönnuna ásamt smá vatni (ca 1/2 dl), lækkaði hitann og setti lokið á pönnuna. Eftir um 5 mínútur bætti ég niðurskornum kjúklingabringunum á pönnuna og blandaði öllu vel saman. Kryddað eftir smekk og borið fram með tzatziki.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Kanilsnúðar í ofnskúffu

$
0
0

Ég, sem horfi allt of sjaldan á sjónvarpið og kann varla að kveikja á Netflix, var svo gjörsamlega búin á því á föstudagskvöldinu að ég sendi krakkana eftir Dominos og nammi og lá síðan í sófanum það sem eftir lifði kvöldins að horfa á The Crown. Þvílíkir þættir! Nú skilst mér að ég sé síðust allra að uppgötva þá en ég get ekki hætt að horfa, sem varð til þess að það varð ekkert af bloggfærslu yfir helgina.

Þeir sem fylgja mér á Instagram gátu þó kannski séð að ég lá nú ekki bara í sófanum heldur vaknaði svo úthvíld á laugardeginum (svaf í rúma 10 tíma án þess að rumska!) að ég var búin að rífa af rúmunum, taka til í geymslunni og baka kanilsnúða áður en dagurinn var hálfnaður. Snúðarnir enduðu á Instagram og nú kemur uppskriftin. Þetta eru eflaust einföldustu kanilsnúðar sem hægt er að baka því degið er bara brotið saman og sett í ofnskúffu. Það væri því eflaust réttara að kalla þá kanilferninga. Mér þótti vera aðeins of mikil fylling í þeim en var ein um að finnast það. Næst mun ég því hafa minni fyllingu. Annars voru þeir fullkomnir!

Kanilsnúðar í ofnskúffu

Deig:

  • 100 g smjör
  • 5 dl mjólk
  • 50 g þurrger (1 pakki)
  • 1/2 tsk salt
  • 1,5 dl sykur
  • 2 tsk kardemommur
  • hveiti eftir þörfum

Fylling:

  • 200 g philadelphiaostur
  • 100 g smjör við stofuhita
  • 3 msk kanil
  • 1,5 dl sykur
  • 1 msk vanillusykur

Yfir snúðana:

  • upphrært egg
  • perlusykur

Bræðið smjörið í potti og hrærið mjólkinni saman við. Hitið blönduna þar til hún hefur náð um 37° hita og setjið hana í skál. Hrærið geri, sykri, salti og kardemommu saman við. Leggið viskastykki yfir skálina og látið standa í nokkrar mínútur (þar til gerið byrjar að freyða). Hrærið því næst hveitinu saman við þar til deigið fer að losna frá könntum skálarinnar (byrjið á um 6 dl og bætið svo hveitinu smátt og smátt saman við). Látið hnoðarann á hrærivélinni (eða hnoðið með höndunum) ganga í 10 mínútur. Látið degið hefast á hlýjum stað (ég læt gerdeig alltaf hefast við 35-40° í ofninum) þar til það hefur tvöfaldast í stærð.

Hrærið öllu saman í fyllinguna með handþeytara.

Fletjið deigið út og smyrjið fyllingunni yfir. Brjótið deigið saman, þannig að það verði þrjú lög af deigi, og leggið í ofnskúffu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Mótið deigið þannig að það fylli út í ofnskúffuna. Skerið göt efst í deigið og skerið síðan út passlega stóra snúða. Látið snúðana hefast í 30 mínútur. Penslið þá með upphrærðu eggi og stráið perlusykri yfir. Bakið við 200° í 17-20 mínútur í neðri hluta ofnsins. Látið snúðana kólna aðeins áður en þeir eru teknir í sundur.

Öll hráefni í þessa uppskrift fæst í

Edamame baunir með dippsósu

$
0
0

Þegar ég var á Balí síðasta haust fékk ég æði fyrir edamame baunum. Síðan þá hef ég pantað mér baunirnar þegar ég sé þær á veitingastöðum en aldrei verið með þær hér heima. Það var svo um daginn þegar við buðum vinum okkar í mat að ég ákvað að prófa að bjóða upp á þær sem snarl með fordrykk (sem var svo góður að ég verð að setja uppskriftina inn fyrir helgina!). Í aðalrétt vorum við með grillaðar humarpizzur og í eftirrétt heita súkkulaðiköku með Dumle-fyllingu, hindberjum og ís (uppskriftin er líka væntanleg).

Ég fann uppskrift af edamame baunum sem mér leist vel á hjá Genius Kitchen. Svo einföld uppskrift og svo brjálæðislega góð! Baunirnar kláruðust á svipstundu og ég hefði eflaust mátt vera með tvo poka af þeim. Dippsósan er æði, ekki sleppa henni. Ég var búin að gera þetta tilbúið vel áður en gestirnir komu en mér þykir alltaf gott þegar hægt er að undirbúa með smá fyrirvara svo maður standi ekki á haus þegar gestirnir eru komnir. Þá vil ég frekar setjast niður með drykk og njóta!

Edamame baunir með dippsósu

  • 1/2 msk maldonsalt
  • 1 poki frosnar edamame baunir
  • klakavatn
  • 2 msk sojasósa
  • 2 msk hrísgrjónaedik
  • 1/2 tsk sesamolía
  • 1 tsk hunang
  • 1 hvítlauksrif, fínhakkað
  • 1 msk vorlaukur, hakkaður (ég sleppti vorlauknum því ég gleymdi að kaupa hann!)

Setjið saltið á litla þurra pönnu yfir miðlungsháum hita og steikið þar til það hefur fengið smá lit (tekur um 6-7 mínútur). Fylgist með saltinu og hristið pönnunna annað slagið. Takið af hitanum og leggið til hliðar.

Hitið vatn að suðu og setjið edamame baunirnar í pottinn. Látið sjóða í 4 mínútur (ekki láta þær sjóða of lengi því þær eiga ekki að verða mjúkar). Takið baunirnar úr pottinum og setjið í skál með klakavatni í, til að koma í veg fyrir að þær haldi áfram að eldast. Þurrkið baunirnar og blandið þeim saman við saltið.

Útbúið sósuna með því að hræra saman sojasósu, hrísgrjónaediki, sesam olíu, hunangi, hvítlauki og vorlauki.

Berið baunirnar fram með sósunni (í sér skál).

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Vikumatseðill

$
0
0

Gleðilegan þjóðhátíðardag! Ég hélt mér fjarri öllum hátíðarhöldum þetta árið og fór í göngu um Hvaleyrarvatn. Ég vildi að ég væri meira fyrir hátíðarhöldin en satt að segja fæ ég hroll við tilhugsina um að leita að bílastæði í bænum og komast hvorki afturábak né áfram vegna mannfjöldans. Nei, þá vil ég frekar fara í útivistarfötin og halda í öfuga átt við siðmenninguna. Á leiðinni heim kom ég við í Hagkaup og gerði vikuinnkaupin. Nú er ísskápurinn því fullur og allt klárt fyrir nýja vinnuviku.

Vikumatseðill

Mánudagur: Tælenskur lax með núðlum

Þriðjudagur: Karrýgrýta með grænmeti og linsubaunum

Miðvikudagur: Pastagratín

Fimmtudagur: Pizza með sætkartöflupizzubotni

 

Föstudagur: Brauðterta

Með helgarkaffinu: Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í


Kartöflugratín með nautahakki

$
0
0

Ég fór í smá göngu með vinkonum mínum í veðurblíðunni í gærkvöldi. Ég setti inn myndir á Instagram stories og fékk í kjölfarið þónokkrar fyrirspurnir um hvar við vorum. Fyrir áhugasama þá gengum við frá Vífilsstaðavatni upp að Gunnhildi og yfir í Heiðmörk. Mjög falleg og skemmtileg leið sem óhætt er að mæla með. Við byrjuðum þó ferðina á að leggja bíl með veitingum í Heiðmörk og keyrðum síðan yfir að Vífilsstaðarvatni með hina bílana. Þegar við komum í Heiðmörk beið okkar því æðislegt pastasalat með dressingu og litlar prinsessutertur úr Ikea, sem Sigrún vinkona mín var búin að græja. Við fengum meira að segja kvöldsól yfir matnum! Frábært kvöld í alla staði.

Áður en ég lagði af stað eldaði ég súpu handa krökkunum en um daginn gerði ég hins vegar kartöflugratín með nautahakki sem okkur þótti mjög gott. Uppskriftina fann ég á Hemmets Journal og þurfti að hafa heilmikið fyrir að finna hana aftur.  Frábær hversdagsmatur en mig grunar að falli í kramið hjá öllum aldurshópum.

Kartöflugratín með nautahakki

  • 500 g nautahakk
  • 1 msk smjör
  • 1 laukur
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 msk tómatpuré
  • 1 dós hakkaðir tómatar (400 g)
  • 1 msk kálfakraftur
  • salt og pipar
  • oregano, þurrkað
  • 10 kartöflur
  • 2 dl rjómi
  • 2 dl rifinn ostur
Steikið nautahakkið í smjöri. Afhýðið og hakkið laukinn og steikið hann með nautahakkinu í nokkrar mínútur. Pressið hvítlauk saman við og hrærið tómatpuré saman við.
Bætið hökkuðum tómötum og kálfakrafti á pönnuna og látið sjóða við vægan hita í 15 mínútur. Smakkið til með salti, pipar og oregano.
Afhýðið kartöflurnar og skerið í strimla eða skífur. Setjið helminginn af kartöflunum í smurt eldfast mót. Setjið nautahakkið yfir og leggið seinni helminginn af kartöflunum yfir. Hellið rjóma yfir og kryddið með salti og pipar. Setjið álpappír yfir og setjið í 200° heitan ofn í 25 mínútur. Takið þá álpappírinn af, stráið rifnum osti yfir og setjið aftur í ofninn í 20 mínútur.
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Ferskur drykkur með freyðivíni, gini og sítrónu

$
0
0

Ég var búin að lofa að setja inn uppskriftina af fordrykknum sem við vorum með í matarboði um daginn og rétt næ því í tæka tíð fyrir HM annað kvöld. Þegar ég fæ mér sterkan drykk verður G&T oftast fyrir valinu og því kannski ekki skrítið að gindrykkir verði einnig fyrir valinu þegar ég býð upp á drykk hér heima (hér er önnur góð uppskrift af gindrykk). Þessi fannst mér æðislegur! Ferskur og sumarlegur… þrátt fyrir að sumarið láti bíða eftir sér!

Ferskur drykkur með freyðivíni, gini og sítrónu

  • 2-3 cl gin (ég nota Tanqueray)
  • 2 cl sykursýróp (sjóðið vatn og sykur í jöfnum hlutföllum saman þar til sykurinn hefur bráðnað – tekur enga stund!)
  • 3 cl sítrónusafi
  • freyðivín (það fór 1 flaska í 4 glös)
  • klaki
  • sítróna

Hellið gini, sykursírópi og sítrónusafa í stórt vínglas. Fyllið glasið með klaka og hellið síðan freyðivíni í það. Hrærið varlega í glasinu. Setjið sítrónusneið í glasið og berið strax fram.

Kókoskúlur í ofnskúffu

$
0
0

Getum við verið sammála um að heimagerðar kókoskúlur eru óstjórnlega góðar? Sérstaklega þegar þær eru súkkulaðihúðaðar eins og þessar. Þegar þær eru kaldar úr ísskápnum þá er ekki hægt að standast þær með kaffibollanum. Það fer svo brjálæðislega vel saman.

Eins og mér þykja kókoskúlur góðar þá nenni ég sjaldan að gera þær. Jakob tekur sig stundum til og gerir skammt en er þá oftast fljótur að klára þær sjálfur, ef hann býður ekki vinum sínum upp á þær. Ég datt því heldur betur í lukkupottinn þegar ég sá þessa snjöllu aðferð á Instagram, að setja deigið einfaldlega í ofnskúffu, setja súkkulaði og kókos yfir og skera síðan í passlega stóra bita. Tekur enga stund. Stórkostlegasta uppfinning ever!

Kókoskúlur í ofnskúffu

  • 400 g smjör við stofuhita
  • 2 dl flórsykur
  • 1 dl kakó
  • 1 dl Nesquik (eða annað drykkjarkakaó)
  • 2 msk vanillusykur
  • 1 dl kaffi
  • 100 g rjómasúkkulaði
  • um 18 dl haframjöl

Yfir kókoskúlurnar

  • 200 g súkkulaði (ég var með suðusúkkulaði)
  • kókosmjöl

Byrjið á að þeyta smjör og flórsykur saman þar til blandan verður létt. Bætið kakói, Nesquik, vanillusykri, kaffi og bræddu rjómasúkkulaði í skálina og hrærið öllu vel saman. Hrærið haframjöli smátt og smátt saman við þar til réttri áferð er náð. Blandan á að vera blaut í sér en þéttur massi. Þrýstið blöndunni í ofnskúffu sem hefur verið klædd með bökunarpappír og látið standa í ísskáp í smá stund.

Bræðið súkkulaðið til að setja yfir kókoskúlurnar og dreifið því yfir kókoskúludeigið. Stráið kókosmjöli yfir og látið síðan standa í ísskáp í um 30 mínútur.

Skerið kókoskúlurnar í bita. Geymið í loftþéttum umbúðum í ísskáp eða frysti.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Hvít pizza með tómötum, avokadó, pestó og basiliku

$
0
0

Þá er kominn nýr mánuður og ný vinnuvika. Sumarið (sem hefur þó varla verið neitt sumar hér á höfuðborgarsvæðinu) fer að verða hálfnað! Hér á heimilinu er enginn byrjaður í fríi en við strákarnir fórum í skemmtilega dagsferð á laugardaginn með vinnunni minni, þar sem við gengum upp á Stóra-Dímon og inn í Nauthúsagil og enduðum daginn síðan í grilli. Þetta er skemmtilegur hringur og passar vel fyrir dagsferðir, það er hægt að stoppa við Seljalandsfoss í leiðinni og enda daginn á einhverjum af fjölmörgum veitingastöðum á suðurlandinu.

Í gær var svo hefðbundinn sunnudagur með vikuinnkaupum og vikuundirbúningi. Ég setti myndir um helgina á Insta stories, meðal annars af gróðrastöð fyrir eldhúsið og hef sjaldan fengið jafn mörg skilaboð með fyrirspurnum. Ég held að ég sé búin að svara öllum en gróðrastöðin fæst í Eirberg (þar er útsala núna og 25% afsláttur af gróðrastöðum, þannig að það er um að gera að nýta sér það!) og ég bind miklar vonir við að geta nú loksins átt ferskar kryddjurtir í eldhúsinu. Hingað til hefur mér gengið illa að halda þeim á lífi en gróðrastöðin á að sjá um þetta fyrir mig. Hún veitir birtu og er með sjálvirku vökvunarkerfi. Ég sótti app í símann sem tengdist við gróðrastöðina, þar hakaði ég við þær kryddjurtir sem ég er með og þar með þarf ég varla að gera meira en að skipta um vatn annað slagið. Súpersniðugt!

Planið er síðan að planta þessum pipar í gróðrastöðina (þeir fást líka í Eirberg). Mér þykir það dálítið spennandi, það verður áhugavert að sjá hvað verður úr þessu. Ég er með millistærðina af gróðrastöðinni, þessa hér og setti tvær tegundir af basiliku (venjulega og rauða) og rósmarín í hana. Það er æðisleg lykt í eldhúsinu!

Við vorum búin að ákveða að vera með pizzur í kvöldmatinn í gær, þar sem ég átti mikið af skinku og salami sem ég vildi fara að losna við. Það fór þó svo að þegar basilikan var komin í eldhúsið fékk ég óstjórnlega löngun í tómatapizzu. Úr varð æðisleg pizza sem ég ákvað að skrifa strax niður svo ég geti endurtekið hana. Botninn er úr smiðju Ebbu Guðnýjar en Gunnari þykir þessi pizzabotn vera sá allra besti og velur hann alltaf fram yfir hefðbundinn hveitibotn.

Hvít pizza með tómötum, avokadó, pestó og basiliku

Botn:

  • 250 g lífrænt spelt
  • 3 tsk vínsteinslyftiduft (má sleppa)
  • 1/2 – 1 tsk sjávarsalt
  • 1-2 tsk óreganó
  • 3 msk kaldpressuð ólífuolía (ég var með kaldpressaða hvítlauksólífuolíu)
  • 135-150 ml heitt vatn

Sjóðið vatnið. Blandið þurrefnum saman. Setjið olíu og vatn út í þurrefnin og hrærið saman í deig (tekur stutta stund, ekki hnoða of lengi). Þetta deig dugar í 4 þunnar pizzur og það er best að forbaka botnana í 4-5 mínútur við 180° (ég var þó með hærri hita á pönnupizzunni). Ég notaði helminginn af deiginu í pönnupizzuna.

Yfir pizzusuna:

  • 2 kúlur ferskur mozzarella
  • tómatar (ég var með litla)
  • 1/2 – 1 avokadó
  • handfylli af ferskri basiliku
  • grænt pestó
  • salt og pipar

Setjið helminginn af deiginu í 30 cm steypujárnspönnu (eða fletjið deigið út á ofnplötu) og bakið við 220° í 4-5 mínútur. Stráið þá rifnum ferskum mozzarella og tómötum yfir og bakið áfram þar til osturinn hefur bráðnað. Skerið avokadó í sneiðar og setjið yfir pizzuna ásamt ferskri basiliku og doppum af pestói. Sáldrið góðri hvítlauksolíu yfir, kryddið með sjávarsalti og svörtum pipar og berið fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Vikumatseðill

$
0
0

Síðasta vinnuvikan mín fyrir sumarfrí er framundan og eins og flesta sunnudaga sit ég við tölvuna og undirbý vikuna. Ég er með svo margar uppsafnaðar uppskriftir frá síðustu vikum sem eiga eftir að koma inn á bloggið og síðan er ég með mikið af uppskriftum sem mig langar að prófa. Listinn er langur! Það verður gaman að fara inn í sumarfríið með gott matarplan.

Lífið hefur snúist svolítið um HM upp á síðkastið. Í gær kom mamma til okkar í vöfflukaffi yfir Svíþjóð-England leiknum og um kvöldið hittumst við SSSskutlurnar og borðuðum saman yfir Rússland-Króatíu. Ég hef aldrei horft jafn mikið á fótbolta eins og undanfarnar vikur. Hef reyndar aldrei horft á fótbolta nema þegar Ísland er að spila landsleiki eða Gunnar að spila með Blikunum. Ég er þó búin að átta mig á að HM er fjör með góðum mat og spennandi leikjum. Hlakka mikið til leikjanna í vikunni og úrslitaleiksins um helgina!

Vikumatseðill

Mánudagur: Einfalt fiskgratín með sveppum

Þriðjudagur: Chili con carne

Miðvikudagur: Blómkálssúpa

Fimmtudagur: Ofnbökuð svínalund með sinnepssveppasósu

Föstudagur: Japanskt kjúklingasalat

Með helgarkaffinu: Uppáhalds vöfflurnar

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Viewing all 545 articles
Browse latest View live