Ég veit að það er mánudagur en ég bakaði köku í tilefni dagsins og taldi mig hafa góða ástæðu til. Bloggið mitt er 2 ára í dag. Tveggja ára! Ef það gefur ekki tilefni til að baka köku þá veit ég ekki hvað.
Bloggið er eitt skemmtilegasta áhugamál sem ég hef á ævinni haft. Ég eyði helst öllum lausum stundum í það, þó það sjáist kannski ekki hér. Að lesa uppskriftir, plana matseðla, prófa mig áfram, misheppnast, heppnast, skrifa niður uppskriftir, taka myndir… allt tekur þetta sinn tíma og ég hef ánægju af þessu öllu. Meira en það, ég elska þetta. Fyrir utan bloggið er ég í fullu starfi og með þrjú börn, það er því líf og fjör alla daga vikunnar sem veldur því að suma daga gefst einfaldlega ekki tími til að sinna blogginu og mér þykir alltaf jafn leiðinlegt þegar svo er.
Bloggið væri ekkert án ykkar og það gleður mig inn að hjartarótum hvað þið eruð mörg sem kíkið hingað inn á hverjum degi. Ég man í byrjun þegar heimsóknirnar fóru í fyrsta sinn yfir 100 og mér þótti það svo merkilegt. Í dag skipta þær tugum þúsunda á degi hverjum og mig sundlar af tilhugsuninni einni saman. Þið eruð út um allan heim og bloggið hefur meðal annars fengið heimsóknir frá löndum eins og Venezuela, Qatar, Cambodia, Jordan, Mozambique, Kuwait, Nepal, Yemen og Aruba. Hverjir voru þar? Ég verð svo forvitin þegar ég sé heimsóknir frá framandi löndum.
Takk fyrir öll falleg komment og tölvupósta sem þið hafið sent mér á þessum tveimur árum. Þið hafið fegrað líf mitt með þeim og ég mun seint ná að lýsa því hversu vænt mér þykir um að þið gefið ykkur tíma til að senda mér kveðju ♥
Ég er áskrifandi af Bon Appetit fyrir nokkru einsetti ég mér að prófa alltaf að minnsta kosti eina uppskrift úr hverju blaði sem dettur inn um lúguna. Það gengur svona og svona en ég lúsles blöðin aftur og aftur. Ég elska þessi blöð. Í nýjasta blaðinu kallaði þessi uppskrift á mig, kannski vegna þess að ég er svo hrifin af sítrónum, hindberjum og pistasíuhnetum. Hún var því sjálfskrifuð sem uppskriftin sem yrði prófuð úr þessu blaði. Þessi kaka hefur allt og getur ekki klikkað. Mér þótti hún svo ljúffeng og við dásömuðum hana við hvern bita.
Sítrónukaka með hindberjum og pistasíuhnetum (uppskrift úr bon appétit)
- 1 3/4 bolli hveiti (250 g)
- 1 ½ tsk lyftiduft
- ½ tsk gróft salt
- 4 stór egg
- 1 1/4 bolli + 2 msk sykur
- 2 tsk vanilludropar
- 2 msk fínrifið sítrónuhýði
- 1 msk + 1/4 bolli ferskur sítrónusafi
- 3/4 bolli mild ólífuolía
- 1 bolli fersk hindber
- 3 msk hakkaðar ósaltaðar og óristaðar pistasíuhnetur
Hitið ofn í 175° og smyrjið 24 cm kökuform.
Hrærið saman hveiti, lyftidufti og salti í skál og leggið til hliðar. Hrærið egg og 1 bolla af sykri saman með handþeytara eða í hrærivél í 5 mínútur. Þá ætti blandan að vera orðin ljós og létt. Látið hrærivélina ganga og bætið vanilludropum og 1 msk af sítrónusafa saman við. Hrærið síðan olíunni smátt og smátt saman við. Hærið að lokum þurrefnum og sítrónuhýði varlega saman við. Setjið deigið í kökuformið og sléttið úr yfirborðinu. Setjið hindberin yfir, síðan pistasíuhneturnar og 2 msk af sykri. Bakið kökuna í 45-55 mínútur, eða þar til prjóni sem stungið hefur verið í kökuna kemur hreinn upp.
Á meðan kakan er í ofninum er 1/4 bolli af sykri og 1/4 bolli af sítrónusafa sett í lítinn pott. Látið suðuna koma upp, hrærið í og látið sykurinn leysast upp. Látið sítrónusýrópið kólna.
Þegar kakan er tilbúin er hún tekin úr ofninum og sett á grind til að kólna (ekki taka hana úr kökuforminu). Burstið sítrónusýrópinu yfir hana, notið allt sýrópið. Látið kökuna kólna alveg í forminu.
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í
