Þá er ég komin aftur heim eftir yndislegar vikur í Orlando. Ég hafði hugsað mér að blogga í fríinu en þegar á hólminn var komið hafði ég enga löngun til að sitja við tölvuna. Það fór svo að ég kom varla nálægt henni allt fríið og sit því í súpunni núna. Það hafa aldrei beðið mín jafn margir óopnaðir tölvupóstar og ég vona að þið fyrirgefið mér ef ég hef ekki svarað ykkur. Endilega sendið mér aftur póst ef svo er.
Það er yndislegt að vera í Florida og ný ævintýri bíða á hverjum degi. Við fórum í skemmtigarða, á tónleika, á ströndina, í hjólaskautahöll, í siglingu, á nýja veitingastaði á hverju kvöldi og svo mætti lengi telja en það sem stóð upp úr var þegar við keyrðum út fyrir Orlando og leigðum okkur kajak. Það var búið að vara okkur við krókódílum í vatninu og við sáum nokkra, þar af einn sem fór alveg upp við kajakinn okkar. Þvílíkt ævintýri og svo æðislega skemmtilegt.
Ég hef enga uppskrift til að deila hér í kvöld enda hef ég varla eldað nokkuð af viti síðustu vikurnar. Undir lokin á fríinu gat ég ekki beðið eftir að komast aftur heim í eldhúsið mitt og hef síðustu daga legið yfir uppskriftum til að prófa. Mig langaði bara til að kíkja hingað inn til að senda ykkur smá kveðju. Ég var farin að sakna ykkar.
Ég sá að Facebook-fylgjendur Ljúfmetis eru að nálgast 13.000! Ég er orðlaus og þakklát inn að hjartarótum. Takk, takk, takk! Þið gleðjið mig meira en ég mun nokkurn tímann fá lýst.
